Gengi evrunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur ekki verið veikara síðan í janúar á þessu ári, en evran fór undir 1,31 dal í dag. Þrátt fyrir að 26 af 27 ESB ríkjum hafi ákveðið að gera nýjan sáttmála um fjármál einstakra ríkja eru margir áhyggjufullir um að ekki takist að ganga frá slíkum sáttmála eða að hann muni ekki duga til að binda enda á skuldavanda evruríkjanna.

Nokkrar sveiflur voru á evrópskum hlutabréfavísitölum í dag, en flestar þeirra enduðu þó daginn hærri en þær höfðu verið í upphafi dags. Breska FTSE vísitalan hækkaði um 1,15%, en þýska DAX vísitalan lækkaði um 0,19% og franska CAC lækkaði um 0,35%.