Verð evru gagnvart dollara féll í 1,0457 um skamma hríð í nótt áður en það hækkaði aftur. Sérfræðingur telur raunhæfan möguleika á því að dollarinn verði verðmætari en evran innan tveggja mánaða. Goldman Sachs telur að verð evrunnar geti jafnvel fallið í 0,80 dollara fyrir árslok 2017. Wall Street Journal greinir frá.

Evrópski seðlabankinn stendur þessi misserin í umfangsmiklum skuldabréfakaupum til að örva hagvöxt á evrusvæðinu. Í ljósi þess að vextir á evrusvæðinu eru í algjöru lágmarki horfa þeir sem fjárfest hafa í evrópskum eignum nú vonaraugum til Bandaríkjanna, en þess er sterklega vænst að bandaríski seðlabankinn fari fljótlega að hækka stýrivexti í ljósi kröftugs efnahagsbata þar í landi. Búist er við því að næsta yfirlýsing peningastefnunefndar bandaríska seðlabankans, sem kemur út á miðvikudaginn, muni gefa fyrirheit um slíkar vaxtahækkanir í sumar.

Veiking evrunnar sér að mörgu leyti vel fyrir hagkerfin á evrusvæðinu, enda leiðir veikari evra til aukinnar samkeppnishæfni evrópskra iðnfyrirtækja. Franska CAC 40 vísitalan hefur hækkað um 0,8% og þýska DAX 30 vísitalan um 1,4% það sem af er degi.

Breytt verðhlutföll dollara og evru hafa ekki skilað sér til jafns í gengi þessara gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Krónan hefur ekki verið veikari gagnvart dollara síðan 2008 , en verð evru gagnvart krónu hefur haldist nokkuð stöðugt síðustu misserin.