Evran hefur ekki verið veikari gagnvart Bandaríkjadollaranum í tuttugu ár, m.a. vegna væntinga um að Seðlabanki Evrópu ráðist ekki í jafnmiklar vaxtahækkanir og áður var gert ráð fyrir.

Evran veiktist um 1,2% gagnvart dollaranum í gær þegar mest lét, niður í 1,0298 á móti hverjum dollara og nálgast nú jafngengi. Verðgildi evrunnar gagnvart dollaranum hefur lækkað um 9% í ár og hefur nú ekki verið minna frá því í desember 2002.

Í umfjöllun Bloomberg segir að evran hafi tekið að veikjast eftir að væntingar fjárfesta um hraðar vaxtahækkanir dvínuðu í kjölfar þess að PMI vísitalan, einnig kölluð vísitala innkaupastjóra, í frönskum iðnaði lækkaði. Talið er að Seðlabanki Evrópu hafi ekki tök á að hækka vexti jafnhratt og Seðlabanki Bandaríkjanna.

Fram kemur að fjárfestar hafi væntingar um að evrópski seðlabankinn muni hækka vexti um minna en 140 punkta í ár, en fyrir þremur vikum spáðu þeir því að vextir yrðu hækkaðir um 190 punkta.