Skráð miðgengi evru í dag er 139,95 krónur. Síðast fór miðgengi evrunnar undir 140 krónur þann 7. október 2008, eða fyrir sjö og hálfu ári síðan, og því má segja að um nokkurn áfanga sé að ræða.

Evran fór hæst í 187 krónur í desember 2008 og svo aftur í 186,65 krónur í nóvember 2009. Frá því um mitt ár 2010 og út árið 2013 sveiflaðist evran í kringum 160 krónur. Frá upphafi árs 2014 hefur krónan styrkst nokkuð samfellt gagnvart evrunni.

Nafngengi evrunnar gagnvart krónunni er nú 25% lægra en þegar það var hæst. Raungengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni hefur styrkst mun meira, en þar er tekið tillit til verðlagsbreytinga á tímabilinu.