Íslenskum kreditkortanotendum hefur mörgum hverjum brugðið heldur í brún undanfarna daga.

Eftir að hafa notað kort sín til viðskipta í útlöndum eru margir svekktir yfir þeim kjörum sem þeir virðast hafa keypt gjaldeyri á og athygli vekur hversu mismunandi kjörin eru eftir kortafyrirtækjum.

Í gær kostaði evran t.a.m. 189 krónur fyrir notendur MasterCard en 229 krónur fyrir notendur VISA.

Á sama tíma var opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka 173 krónur íslenskar fyrir hverja evru en bankinn hafði látið af því að versla með hana í á föstu gengi fyrr um daginn.

Gjaldeyriskaup kreditkortafyrirtækjanna eru þó ekki í höndum íslenskra aðila heldur er það alþjóðlegi hluti VISA og MasterCard sem hefur það hlutverk að sækja inn á gjaldeyrismarkaði fyrir þeirra hönd, að sögn viðmælenda Viðskiptablaðsins hjá kortafyrirtækjunum. Kjör íslenskra kortahafa ráðast í þeim viðskiptum.

„Þetta er engin álagning heldur heimsmarkaðsverð. Munurinn á MasterCard og VISA getur helgast af því að viðskipti fyrirtækjanna fara fram í mismunandi tímabelti. Viðskiptin fara fram á sitthvorum tíma, á sitthvorum staðnum, innan sama sólarhringsins og vonandi er þetta ástand sem varir bara í örfáa daga.“ sagði Höskuldur Ólafsson, forstjóri Valitor, umboðsaðila VISA.