Evran hefur velt Bandaríkjadali úr sessi sem helsta mynt skuldara á alþjóðaskuldabréfamörkuðum. Í fyrra var verðmæti þeirra skuldabréfa sem voru gefin út í evrum meiri en skuldabréfa í Bandaríkjadölum annað árið í röð.

Alls voru gefin út skuldabréf fyrir 4.836 milljarða Bandaríkjadala í evrum á meðan verðmæti þeirra skuldabréfa sem voru gefin út í Bandaríkjadölum nam 3.892 milljörðum dala, samkvæmt upplýsingum frá International Capital Market Association (ICMA).

Evran hefur verið að ryðja sér til rúms á skuldabréfamörkuðum á allra síðustu árum. Árið 2002 nam hlutfall skuldabréfa í evrum 21% af heildarskuldum á meðan hlutfall skuldabréfa í Bandaríkjadölum nam 51%. Í fyrra nam hlutfall evru 45% og Bandaríkjadals 37%.

Margir þættir eru taldir skýra þessa þróun. Aðildarríki Evrópusambandsins fjármagna hallarekstur með útgáfu evruskuldabréfa eðli málsins samkvæmt, en á sama tíma hefur borið á því að fyrirtæki og fjármálafyrirtæki hafa í auknum mæli fjármagnað sig með því að gefa út skuldabréf í evrum og á sama tíma hafa seðlabankar í ríkjum í Asíu og Miðausturlöndum í auknum mæli aukið vægi evru í gjaldeyrisforða sínum á kostnað Bandaríkjadals.

Ástæður þess að evran vegur þyngra nú en áður má einnig finna í þeirri staðreynd að minna flökt hefur verið á stýrivöxtum á evrusvæðinu en í Bandaríkjunum, auk þess sem almenn tiltrú fjárfesta á myntsamstarfi Evrópusambandsins virðist hafa aukist.