Evran hefur verið að styrkjast þó nokkuð á síðustu vikum gagnvart helstu myntum og  er afar líklegt að þar spili væntingar um að vaxtahækkun hjá Evrópska seðlabankanum. Sem kunnugt er þá mun bankinn tilkynna vaxtaákvörðun sína á morgun og eru flestir á markaði á þeirri skoðun að hann muni hækka vexti sína um 0,25 punkta, þ.e. úr 1,0% í 1,25%. Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um málið í dag.

Umfjöllun greiningar:

„Nú þegar þetta er ritað (kl. 11:00) kostar evran rúma 1,43 Bandaríkjadollara og hefur hún ekki verið jafn dýr í dollurum talið síðan í janúar í fyrra. Það sem af er ári hefur EURUSD krossinn farið lægst niður í tæp 1,29, sem var snemma í janúar, og hefur hún þar með styrkst um tæp 11% á þeim tíma gagnvart dollar.

Þessi þróun á EURUSD krossinum hefur gert það að verkum að Bandaríkjadollar hefur lækkað nokkuð í verði í krónum talið. Nú þegar þetta er ritað kostar dollarinn 113,50 krónur og hefur hann ekki verið jafn ódýr í krónum talið síðan seint í nóvember síðastliðnum. Evran er á hinn bóginn í dýrari kantinum og kostar nú 162,35 sem er á svipuðum slóðum og hún hefur verið síðustu tvær vikur.

... en jenið siglir krappan sjó

Mikið flökt hefur verið á gengi japanska jensins frá því jarðskjálftinn reið yfir Japan um miðjan mars síðastliðinn. Nokkuð fróðlegt hefur verið að fylgjast með hreyfingum jensins sem fyrst um sinn eftir jarðhræringarnar styrktist verulega gagnvart öðrum myntum, en það er öfugt við það sem búast mætti við ef um annað land og aðra mynt væri að ræða. Þessi þróun snerist þó að lokum upp í andhverfu sína og stendur USD/JPY krossinn nú í 85,21 en hann hefur ekki verið svo hár síðan um miðjan september. Telja má nokkuð líklegt að þessi þróun haldi áfram, þ.e. að jenið komi til með að veikjast enn frekar, enda hafa margir verið þeirrar skoðunar að gengi þess hafi verið of sterkt síðustu misseri. Augljóslega fer krónan ekki varhluta af þessari þróun þrátt fyrir hin ströngu gjaldeyrishöft sem eru við líði hér á landi. Nú þegar þetta er ritað kostar jenið rétt rúmar 1,33 krónur og hefur ekki verið jafn veikt gagnvart krónu síðan seint í október árið 2009.“