Viðsnúningur varð á gengi evrunnar í gær þegar evran tók að styrkjast á nýjan leik eftir að hafa veikst síðustu fjóra daga þar á undan. Evran hafði veikst um 5% gagnvart Bandaríkjadal. Það sem af er morgni hefur evran haldið áfram að styrkjast og kostar nú 1,392 Bandaríkjadali en fór lægst niður í 1,349 á þriðjudaginn.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í morgunkorni sínu í dag. Segir að fyrst og fremst fréttir frá Írlandi valdi styrkingu evrunnar. Fréttir herma að Írar undirbúi sig nú fyrir að þiggja fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Auk þess hafa fréttir af góðum undirtektum við ríkisútbréfaboði á Spáni stutt frekar við gengi evru í morgun, að því er segir í morgunkorni.

„Óhætt er að segja að öll spjót beinist nú að Írlandi sem hefur verið í sviðsljósinu undanfarna daga vegna skuldavandræða þjóðarinnar. Írafárið snýst nú að mestu um hvort Írar muni láta undan þrýstingi Evrópusambandsins um að þiggja fjárhagsaðstoð. Forsvarsmenn ESB og evrulandanna telja mikilvægt að grípa í taumanna strax, áður en það verður of seint, til að koma í veg fyrir að önnur skuldsett evruríki á borð við Portúgal og Spán fari sömu leið.

Sendinefnd frá  ESB, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Seðlabanka Evrópu er væntanleg til Dyflinnar í dag þar sem hún mun funda með fulltrúum írskra stjórnvalda um mögulegan björgunarpakka, en talið er að Írland þurfi fleiri tugi ma. evra til að komast yfir versta hjallann. Forsætisráðherra Írlands sagði fjölmiðlum í gær að engar ákvarðanir verði teknar um framhaldið eða mögulegan björgunarpakka fyrr en búið er að funda með sendinefndinni.

Seðlabankastjóri Írlands sagði í gær búast við að Írar muni þiggja björgunarpakkann og flestir búast nú við að Írar láti undan þrýstingi og hefji fljótlega einhverskonar samstarf við AGS og Evrópusambandið,“ segir í morgunkorni.