Gengi evru gagnvart dollar hefur verið að hækka töluvert undanfarið og fór upp í 1,25 dali á hverja evru í fyrsta skipti í þrjú ár í dag að því er The Wall Street Journal greinir frá.

Síðustu hækkanirnar á evrunni komu í kjölfarið á því að seðlabankastjóri Evrópu, Mario Draghi, ræddi kraftmikinn hagvöxt við blaðamenn. James Atley hjá Aberdeen Investments segir í samtali við The Wall Street Journal að markaðurinn hafi skilið orð Draghi sem svo að seðlabankinn hefði meiri trú á að verðbólga færi rísandi og að útlitið væri gott á Evrusvæðinu.

Hækkandi verðbólga myndi auka þrýsting á Evrópska seðlabankann að sýna meira aðhald í peningastefnu sinni og fyrr en gert hefði verið ráð fyrir. Að sama skapi hefur dollarinn farið lækkandi en það er rakið að stórum hluta til þess að fjárfestar telja að aukinn hagvöxtur á heimsvísu þýði að seðlabankar líkt og hinn evrópski muni fyrr hækka vexti.