Síðastliðinn fimmtudag var vaxtaákvörðunarfundur Seðlabanka Evrópu. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá ákvað bankinn að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í kjölfar blaðamannafundar Mario Draghi seðlabankastjóra með fréttamönnum fór gengi evrunnar að styrkjast. Draghi gaf til kynna að bankinn hygðist nú snúa aftur til hefðbundinnar peningamálastefnu og margir aðilar á markaði vænta þess að það styttist í að bankinn byrji brátt að vinda ofan af örvunaraðgerðum Seðlabanka Evrópu, sem fela í sér kaup á skuldabréfum ríkja evrusvæðisins.

Í Hagsjá Landsbankans er farið yfir stöðuna og vísað er til þess að aðilar á markaði telji jafnvel að tilkynnt verði um að örvunaraðgerðunum verði hætt eftir næsta fund bankans í september eða jafnvel eftir fundinn í desember. Einnig bendir Hagfræðideildin á að gengi evru gagnvart dollara hefur hækkað upp fyrir 1,1450 dali fyrir hverja evru, sem var áður mikilvægt viðnámsgildi. „Verði væntingar á markaði áfram í sömu veru, og takist skiptigenginu að halda sér fyrir ofan fyrrnefnt gildi næstu daga, gætum við séð frekari hækkanir þess á komandi vikum eða mánuðum - mögulega upp í 1,20 eða hærra,“ segir í Hagsjá Landsbankans. Skiptigengið hefur hækkað um 10,7% á árinu og hefur ekki verið eins hátt síðan í byrjun árs 2015.

Dregur úr kröfumun

Eins og áður hefur verið bent á í Hagsjá Landsbankans og Viðskiptablaðið hefur fjallað um, þá hefur dregið talsvert kröfumun á skuldabréfum ríkja. Munurinn er einn af helstu drifkröftum á gjaldeyrismarkaði. Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa er og hefur lengi verið töluvert hærri en sambærileg bréfa í Þýskalandi. Á þessu ári hefur krafa bréfanna vestanhafs lækkað en krafa þýskra bréfa hækkað. Því hefur dregið verulega úr kröfumuninum, bandarískum bréfum í óhag, en þýskum bréfum í vil.