Gengi evrunnar fór undir 78 krónur í morgun og lægra hefur það ekki verið gagnvart krónu frá því í lok árs 2000 segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar er bent á að gengi krónunnar hefur hækkað mikið gagnvart helstu myntum að undanförnu vegna mikils munar á innlendum og erlendum vöxtum, innstreymi erlends lánsfjár o.fl. Væntingar um frekari vaxtahækkun hér á landi umfram það sem búast má við erlendis hefur valdið gengishækkun krónunnar síðustu daga.

Gengishækkun krónunnar hefur þó ekki verið mjög áberandi gagnvart evrunni þar til á þessu ári. Ástæðan er mikil hækkun evrunnar gagnvart helstu myntum á síðustu árum. Hagvöxtur á evrusvæðinu er þó ekkert til að hrópa húrra fyrir og hefur hækkun evrunnar ekki hjálpað þar til. Ekki er spáð vaxtahækkun í bráð af hálfu evrópska seðlabankans og má í því ljósi reikna með að munur á innlendum skammtímavöxtum og sambærilegum vöxtum á evrusvæðinu aukist enn á næstu vikum og mánuðum. Vel er hugsanlegt að evran muni af þeim sökum lækka enn frekar í verði gagnvart krónu.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.