*

laugardagur, 19. júní 2021
Erlent 3. desember 2011 13:57

Evran var stórgölluð frá upphafi

Jaques Delors, einn frumkvöðla evrunnar, er harðorður í garð evrópskra þjóðarleiðtoga.

Ritstjórn
Delors gefur ekki mikið fyrir leiðtoga Evrópu og viðbrögð þeirra við skuldavanda álfunnar.
AFP

Jacques Delors, fyrrverandi forseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og einn af frumkvöðlum þess að koma upp sameiginlegum gjaldmiðli í sambandinu, segir evruna hafa verið stórgallaða frá upphafi.

Í viðtali við breska blaðið Telegraph segir Delors að þegar verið var að taka evruna upp hafi leiðtogar helstu evruríkja látið sem þeir sæu ekki veikleika og ójafnvægi í efnahagslífi sumra aðildarríkjanna. Ekkert eftirlitskerfi hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að þessi ríki söfnuðu skuldum umfram greiðslugetu sína. Segir hann að afleiðingin sé sú að ESB glími við erfiðleika sem séu svo umfangsmiklir að þeir ógni stöðu Evrópu í heiminum og jafnvel lýðræðisgildum álfunnar.

Delors segir að sú stefna Þjóðverja að evrópski Seðlabankinn eigi ekki að aðstoða verst stöddu ríkin sé röng, en Þjóðverjar eru á móti slíkum aðgerðum af ótta við að þær leiði til aukinnar verðbólgu.