Gengi evrunnar fór í dag í  fyrsta skipti undir 1,2 dollara síðan í mars árið 2006. Aukin áhættufælni á mörkuðum hefur valdið því að fjárfestar hafa verið að flýja yfir í svissneska franka, Bandaríkjadal og jen. Skuldavandi Evrópuríkja veldur enn og aftur áhyggjum og beinist nú kastljósið að skuldastöðu ungverska ríkisins og miklum erlendum skuldum hagkerfisins. Ungverska forintan náði sínu lægsta gildi í fjórtán mánuði

Jafnframt hefur orðið töluverð lækkun á hlutabréfamörkuðum eftir að hagtölur frá Bandaríkjunum sýndu minni vöxt nýrra starfa en reiknað hafði verið með. Alls urðu til um 430 þúsund ný störf í síðasta mánuði sem var um eitt hundrað þúsund störfum minna en meðalspá greinenda hljóðaði upp á.