Krónan hefur haldið áfram að veikjast í dag og hefur veikst um tæplega eitt prósent. Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi á gjaldyerismarkaði voru einhver viðskipti núna í eftirmiddaginn eftir rólegan morgun. Sérfræðingar hafa þó ekki neinar sérstakar skýringar tiltækar á veikingunni í dag, nema hvað þetta virðist framhald á þeirri þróun sem einkennt hefur síðustu 4-5 vikur meira og minna.

Sérfræðingar benda þó á að það er athyglisvert að evran er komin yfir 170 krónur í fyrsta sinn á árinu, en ýmsir höfðu búist við að Seðlabankinn myndi leitast við að halda krónunni sterkari gagnvart evru en hún var um áramót. Á markaði tala ýmsir um að sú stefna Seðlabankans að standa ekki gegn veikingu krónunnar í mars með inngripum reynist nú dýrkeypt. Fram að því hafði verið að byggjast upp trú á að bankinn myndi vinna gegn veikingu krónu með ráðum og dáð, en nú virðist sem eigendur gjaldeyris kinoki sér við að selja hann fyrir krónur þar sem frekari veiking getur yfirunnið vaxtamuninn býsna hratt.