Sigmar Gabriel, efnahagsráðherra og varakanslari Þýskalands, segir að Þýskaland vilji halda Grikklandi innan evrusamstarfsins, en ekki sé nóg með að tíminn sé að renna út, heldur megi segja það sama um þolinmæði gagnvart Grikkjum um Evrópu alla.

Í frétt BBC er vitnað í grein sem Gabriel skrifaði í þýska tímaritið Bild, en hörð afstaða hans gagnvart Grikkjum er sögð áhugaverð fyrir þær sakir að flokkur hans, sósíaldemókratarnir, hefur hingað til haft meiri samúð með málstað Grikkja. „Um Evrópu alla vex þeirri hugmynd ásmegin að nóg sé komið,“ segir hann í greininni.

Skammtímamarkmið Grikkja er að koma í veg fyrir að greiðslufall verði á 1,5 milljarða evru afborgun á láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í lok mánaðarins. Lánadrottnar hafa krafist niðurskurðar á útgjöldum gríska ríkisins áður en þeir afhenda 7 milljarða evra neyðarlán til gríska ríkissjóðsins. Ríkisstjórn Syriza í Grikklandi hefur hins vegar þráast við að verða við þessum kröfum, einkum hvað varðar lífeyrisgreiðslur.

Í gær varaði forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, grísku þjóðina við því að framundan gæti verið erfið málamiðlun, sem gæti bent til þess að ríkisstjórnin sé að búa sig undir að verða við kröfum lánadrottnanna. Þó er ekki gefið að hún hafi meirihluta á gríska þinginu fyrir slíkri málamiðlun, því áhrifamiklir þingmenn innan Syriza eru algerlega andsnúnir slíkri undanlátsemi.