Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og hafa ekki verið lægri í um einn og hálfan mánuð að sögn Reuters fréttastofunnar en minnkandi hagvöxtur og aukinn verðbólguþrýstingur er að sögn fréttastofunnar talin helsta ástæða þessa að fjárfestar haldi nú að sér höndum.

Þegar Seðlabanki Evrópu kynnti stýrivaxtaákvörðun sína í dag sagði Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri að allar tölur um efnahag evrusvæðisins gæfu til kynna að hagvöxtur yrði í lágmarki og auk þess væri erfið barátta við verðbólgu framundan að sögn Reuters.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 2,5% og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

Þannig lækkaði UBS um 5,4%, Barclays um 6%, Royal Bank of Scotland um 4,2%, Credit Agricole um 5,8% og Deutsche Bank um 3% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,9%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 3,2% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 2,4%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2,8%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 3,5% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,2%.