Hlutabréf í Evrópu hafa lækkað nokkuð nú í morgunsárið en líkt og í Bandaríkjunum í gær og í Asíu í dag eru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir dagsins.

Orðrómur um hugsanlega þjóðnýtingu bandarísku fjárfestingalánasjóðanna Fannie Mae og Freddie Mac virðist hafa töluverð áhrif á markaði að því er fram kemur bæði á vef Bloomberg og fréttavef Reuters.

Þegar þetta er skrifað, kl. 08:15 hefur FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 1,5% en alls hafa bankar og fjármálafyrirtæki innan vísitölunnar lækkað um 5,2% nú í morgun samkvæmt upplýsingum frá Reuters fréttastofunni.

Þannig hefur Royal Bank of Scotland lækkað um 4%, HSBC um 2,3% og BNP Paribas um 2,5% og Barclays um 5% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 1,6%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 2,3% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 1,5%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 2,1% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 1%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,4% frá opnun í morgun, í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 1,3% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 1,6%.