Hlutabréfamarkaðir í Evrópu hafa farið vel af stað í morgun og eru allir grænir. Það er annað en í gær þegar allir markaðir lækkuðu um rúm 2% strax við opnun þó heldur hafi dregið úr þeirri lækkun þegar líða fór á daginn.

Orð Ben Bernanke, Seðlabankastjóra Bandaríkjanna frá því í gær höfðu jákvæð áhrif á markaði í Bandaríkjunum og segja viðmælendur Retuters fréttastofunnar að það sé nú að smita út frá sér til Evrópu.

FTSEurofirst 300 vísitalan hefur það sem af er degi hækkað um 1% en vísitalan lækkaði um 1,5% í gær og hefur lækkað um 22% frá áramótum.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 1%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 1,1% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 1%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,9% og í Sviss hefur SMI vísitalan hækkað um 1,9%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan hækkað um 1,8%, í Osló hefur hefur OBX vísitalan hækkað um 1,1% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan hækkað um 1,4%.