Hugbúnaðarfyrirtækið Unimaze hefur séð meira en 50% aukningu í miðlun reikninga í hverjum mánuði á árinu miðað við árið 2019. Einar Geir Jónsson, sölu- og markaðsstjóri, segir að það megi að stórum hluta rekja til ákvörðunar Fjársýslu ríkisins að neita alfarið að taka við öðru en rafrænum reikningum, þar á meðal PDF skjölum, en allir reikningar hennar urðu rafrænir frá og með 1. janúar síðastliðnum. Áætlað er að tilfærslan yfir í rafræn reikningsskil muni spara Fjársýslunni um 200 milljónir króna árlega.

Unimaze er íslenskt sprotafyrirtæki sem var stofnað af Markúsi Guðmundssyni árið 2003 og hóf starfsemi með sérhæfingu í rafrænum viðskiptum árið 2006. Fyrirtækið vinnur að lausnum sem gera fyrirtækjum kleift að senda rafræna reikninga með einföldum, öruggum og rekjanlegum hætti úr bókhaldi í bókhald. Í dag er Unimaze, sem hefur starfað undir nafninu Sendill á Íslandi, í meirihluta eigu Origo.

Einar segir að Ísland standi einna fremst Evrópuþjóða í tilfærslunni í rafræna reikninga. „Það má segja að restin af Evrópu sé kannski 10 til 20 árum á eftir okkur í þessu. Það eru því rosalegir vaxtamöguleikar á þeim markaði.“

10 evru sparnaður fyrir hvern reikning

Rafrænn reikningur er tölvulesanlegt skjal á XML formi sem styður við sjálfvirkni í innlestri í fjárhagskerfi kaupanda. Notendur rafrænna reikninga þurfa því ekki að stimpla inn upplýsingum líkt og við notkun PDF skjala, sem flokkast ekki sem rafrænir reikningar.

Einar segir að það sé stórfurðulegt að fólk þurfi að slá inn frumupplýsingum úr reikningum á árinu 2020. „Í okkar kerfi þá ýtir maður bara á send og tölurnar eru lesnar beint inn í tölvukerfi hins aðilans. Þá er bara hægt að staðfesta tölurnar og greiða um leið.“

Tilfærslan úr pappírsreikningum eða PDF skjölum í XML formið skilar því miklu hagræði í bókhaldi fyrirtækja hvort sem um er að ræða sendingu eða móttöku reikninga. Einar segir að fyrirtæki spari um 10 evrur á hvern reikning með því að taka upp rafræna reikninga.

„Þú getur rétt ímyndað þér ávinninginn ef þú margfaldar það með fjölda reikninga.“ Hann segir að hagræðið sé meira hjá stærri fyrirtækjum, líkt og þegar reikningar fara á milli deilda eða fyrirtækja í samstæðu. Smærri fyrirtæki geta þó sparað 8-9 evrur fyrir hvern reikning.

Unimaze hefur einnig lagt áherslu á staðlaða reikninga þar sem röð reita, líkt og kennitala eða eindagi, er alltaf eins. Einar segir að það hafi tekið tíma fyrir íslenska markaðinn að taka staðlana í sátt og að fyrirtækið hafi þurft að vera ákveðið í stefnu sinni. „Menn hafa algjörlega séð það í dag hvað þetta hefur borgað sig.“

„Það hefur alltaf verið okkar kjörorð að fylgja þessum stöðlum. Þú færð hagræði með því að vera svolítið agaður og hugsa til langs tíma. Með þeirri stefnu verður allt einfaldara.“

Einar segir að flest stór íslensk fyrirtæki séu mörg búin að taka upp XML tæknina en að Evrópa sé enn þá föst í EDI kerfinu sem hefur ekki stöðluð samskipti. Fyrir vikið felast stór tækifæri á Evrópumarkaðnum þegar fyrirtæki þar fara að taka upp lausnir líkt og Unimaze býður upp á.

Unimaze er með starfsemi í Serbíu og þjónustar fyrirtæki í fleiri en tíu Evrópulöndum. Hann segir að stór evrópsk bókhaldsfyrirtæki séu farin að nota lausnir Unimaze sem miðla upplýsingum á milli bókhaldskerfa. Einar sér fram á að fyrirtækið muni opna fleiri skrifstofur erlendis en tekur þó fram að engin ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum.

Einar bendir einnig á að fyrirtækið sé ekki einungis að horfa til bókhaldsins heldur alls innkaupaferilsins hjá fyrirtækjum og nefnir þar til dæmis netverslun. „Ávinningurinn eykst eftir því sem rafræni hluti ferilsins verður stærri.“

Nálgast má frekari upplýsingar um fyrirtækið og þjónustu þess á vefsíðunni unimaze.com .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .