Hlutabréf hækkuðu lítillega á flestum mörkuðum í Evrópu í dag eftir að hafa þó lækkaði við opnun í morgun en líkt og áður hefur komið fram efast fjárfestar út um allan heim um nýja björgunaráætlun bandarískra stjórnvalda.

Þó virðist sólin hafa risið eitthvað því eftir hádegi í dag tókum markaðir kipp upp á við og enduðu sem fyrr segir flestir yfir núllinu. Þar voru það helst lyfjaframleiðendur sem leiddu hækkanir eftir að Sanofi-Aventis tilkynnti um jákvætt uppgjör auk þess sem AstraZeneca tilkynnti að til stæði að skera verulega niður í rekstrarkostnaði félagsins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu fyrirtækin á mörkuðum í Evrópu, hækkaði um 0,2% í dag en hafði um hádegi lækkað um 1,5%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,5%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,8% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,5%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,2% en í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,4%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,3% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,1% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,3%.