Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag sem er í takt við lækkanir í Bandaríkjunum í gær og Asíu í morgun en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, lækkaði um 1% eftir að hafa þó lækkaði um 2,2% fyrr í dag. Heldur dró úr lækkun hlutabréfa undir lok dags eða eftir að markaðir opnuðu í Bandaríkjunum þar sem hlutabréf hækkuðu lítillega.

Vísitalan hefur nú lækkað um 13,5% það sem af er ári.

„Það berast engar jákvæðar fréttir og því sjá fjárfestar enga ástæðu til að kaupa hlutabréf,“ hefur Reuters fréttastofan eftir verðbréfamiðlara í Þýskalandi.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,9%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 0,6% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,7% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,5%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 2%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 2,9% en í Osló hækkaði OBX vísitalan hins vegar um 0,4%.