Hlutabréf hækkuðu talsvert í Evrópu í dag eins og áður hefur komið fram hér á vb.is í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hafa aðgerðir bandarískra yfirvalda til að koma jafnvægi á markaði jákvæð áhrif á fjárfesta auk þess sem bann við skortsölu í Bandaríkjunum og Bretlandi hafi einnig vakið upp jákvæð viðbrögð.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði í dag um 8,3% sem er mesta hækkun á einum degi í um tvö ár að sögn Reuters. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 1% í vikunni og 26% frá áramótum.

Eins og fyrr segir voru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins og hækkuðu margir þeirra „fáránlega mikið“ eins og einn viðmælandi Reuters kemst að orði.

Þannig hækkaði UBS u m 31,7%, Barclays um 29,2%, HBOS um 28,9%, Credit Agricole um 20,6% og Royal Bank of Scotland um 31,6% svo tekin séu dæmi um nokkrar „fáránlegar“ hækkanir svo það sé orðað skemmtilega svona í vikulokin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 8,8%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 8,6% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 5,6%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 9,3% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 6,1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 5,7%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 9,4% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 8,2%.