Hlutabréfamarkaðir í Evrópu féllu við opnun markaða í morgun í kjölfar mikillar lækkunar olíuverðs í morgun og lækkunar í viðskiptum dagsins í Asíu.

FTSE 100 í London hefur lækkað um 2,75% þegar þetta er skrifað. DAX í Þýskalandi hefur fallið um 3,04%, CAC 40 í Frakklandi hefur fallið um 3,29% og Evrópska vísitalan Stoxx 600 hefur fallið um 3,02% það sem af er degi, en vísitalan hefur fallið um 12% á árinu.

Hlutabréfamarkaðir í Asíu féllu í viðskiptum dagsins. Nikkei í Japan féll um 3,71% og er nú bjarnarmarkaður, þ.e. hefur fallið um meira en 20% á innan við tveimur mánuðum. Hang Seng í Hong Kong hefur féll um 3,82%. Samsetta vísitalan í Sjanghæ féll einnig um 1,03% í viðskiptum dagsins.