Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja lækkanir dagsins til óvissu um áhrif björgunaraðgerða bandarískra yfirvalda en það sama var upp á teningnum í gær.

Þá lækkuðu námu- og orkufyrirtæki nokkuð í dag sem hafði eins og gefur að skilja áhrif til lækkunar markaða.

Þannig lækkaði Anglo American um 5,5%, Xstrata um 5,9% og Total um 1,5% svo dæmi séu tekin.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 0,5% og hefur nú lækkað alla daga vikunnar.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,8%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,9% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 0,3%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,6% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,4%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,2%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,5% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,5%.