Hlutabréfamarkaðir lækkuðu talsvert í Evrópu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig lækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 5,2% og hefur ekki verið lægri frá því í janúar árið 2005 en vísitalan hefur lækkað um 27% það sem af er þessu ári.

Þá er þetta jafnframt mesta dagslækkun frá 21. janúar á þessu ári að sögn Reuters.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 5,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 8,8% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 4,2%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 5% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 4,6%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 4,6%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalna um 5,4% en mest var lækkun í Osló þar sem OBX vísitalan lækkaði um 8,9%.