Hlutabréf tóku viðnúning á meginlandi Evrópu í dag eftir að hafa lækkað í morgun. Hlutabréfamarkaðir í Skandínavíu sátu þó eftir og lækkuðu töluvert.

Það voru helst lyfjaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar og þá hækkuðu bankar og fjármálafyrirtæki einnig.

Þannig hækkuðu lyfjaframleiðendurnir AstraZeneca, GlaxoSmithKline og Sanofi Aventis á bilinu 2,6 – 3,7% en að sögn viðmælenda Reuters virðist sem svo að fjárfestar séu að leita „öruggra“ fjárfestinga eins og einn þeirra orðar það og segir Reuters að lyfjafyrirtækin hafi gengið vel undanfarið og ekki sé líklegt að breyting verði þar á.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 0,9% í dag. Vísitalan var þó á fleygiferð í dag, hafði um tíma lækkað um 1,6% og eins hækkað um 1,2% og segir Reuters að hún hafi ekki sveiflast jafn mikið á einum degi frá því í mars síðastliðnum.

Í London hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,9%, í Frankfurt hækkað DAX vísitalan um 0,8% og í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 1,1%.

Í Amsterdam og í Sviss stóðu AEX og SMI vísitölurnar í stað við lok markaða eftir að hafa lækkað í morgun.

Eins og fyrr segir lækkuðu hlutabréf nokkuð á Norðurlöndunum. Mest var lækkunin í Osló þar sem OBX vísitalan lækkaði um 3,5% en í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,8% og í Svíðþjóð lækkaði OMXS vísitalan um 0,2%.