Hlutabréf lækkuðu nokkuð í Evrópu í dag og hafa ekki veri lægri í þrjá mánuði að sögn Reuters fréttastofunnar en svo virðist sem viðmælendur Reuters telji allt til ástæðna fyrir lækkuninni í dag, áhyggjur af fjármálamörkuðum, hækkandi olíuverð og aukinni verðbólgu bæði á meginlandinu og annars staðar.

Bankar og fjármálafyrirtæki virðast leiða lækkanir dagsins. Breski bankinn HBOS lækkaði um 4,2%, UBS lækkaði um 3,3% og Deutsche Bank lækkaði um 3,1% svo dæmi séu tekin.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 1,6% og hefur lækkað um 3,4% í vikunni.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,5%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 2,1% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 2,1% sömuleiðis.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 1,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,3%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,4%. Lokað var fyrir viðskipti í Svíþjóð í dag.