Hlutabréf hafa ýmist hækkað eða lækkað í Evrópu það sem af er degi. Strax við opnun markaða lækkuðu flestir markaðir en hafa nú náð flugi á ný og hafa flestir þeirra hækkað.

Þannig lækkaði FTSEurofirst 300 vísitalan um 0,2% strax við opnun en hefur nú hækkað um 0,15% þegar þetta er skrifað, kl. 9:45.

Það eru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða sveiflur dagsins svissneski bankinn UBS hefur í morgun lækkað um tæp 3% á meðan aðrir bankar ýmist hækka eða lækka. Engin viðskipti eru þó með breska banka þar sem markaðir eru lokaðir þar í landi vegna frídags.

Í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,3% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,15%. Þá hefur CAC 40 vísitalan í París hækkað um 0,25% eftir að hafa lækkað um 0,1% við opnun markaða. Sem fyrr segir eru markaðir lokaðir í Lundúnum.

Í Kaupmannahöfn stendur OMXC vísitalan í stað en í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 1,6%.