Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Evrópu í dag eftir nokkuð skrautlegan dag á mörkuðum en  mestu áhrif til lækkunar hafði Royal Bank of Scotland sem lækkaði um 67% eftir að hafa gefið út afkomuviðvörun í morgun. Í kjölfarið lækkuðu flestir bankar.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu, lækkaði um 1,6% í dag og hefur ekki verið lægri í tvo mánuði að sögn Reuters fréttastofunnar.

Í upphafi dags hækkuðu markaðir í Bretlandi og Danmörku eftir að ríkisstjórnir landanna tilkynntu nýja björgunarpakka til handa fjármálakerfinu. Sú þróun snerist þó fljótt við og allir markaðir lokuðu rauðir.

Eins og áður segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Fyrir utan gríðarlega lækkun Royal Bank of Scotland lækkaði Barclays um 10,2%, BNP Paribas um 5,7%, Deutsche Bank um 15% og Lloyds um 30,8%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,9%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,1%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,9% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,6%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,3% og í Osló lækkaði OBX vísitalan um 3,4%.