Jákvæðar tölur frá bæði vesturheimi og Asíu dugðu ekki til þess að létta skap evrópskra fjárfesta í morgun og um klukkustund eftir opnun markaða bendir fátt til annars en að framundan sé enn einn depurðardagurinn á öllum helstu hlutabréfamörkuðum álfunnar. Rauði liturinn er allsráðandi á töflum yfir þróun hlutabréfavísitalna.

Lækkunin er svo sem ekki mikil enn sem komið er, nema í Frakklandi þar sem CAC40, hefur lækkað um 2,1% það sem af er degi, en þegar litið er til þess að flestir markaðir hækkuðu við opnun virðist ljóst í hvað stefnir. FTSE100 í Bretlandi hefur lækkað um 0,4%, DAX í Þýskalandi um 0,2% og EuroStoxx um 0,9%. Þá hefur OMXS30 í Stokkhólmi lækkað um 0,8%.