Fjármálaráðherrar G-20 ríkjanna (20 stærstu iðnríkja heims) funduðu um skuldakreppuna í Mexíkóborg í gær. Ráðherrar G-20 ríkjanna þrýstu á ráðherra evruríkjanna að þeir leitist við að styrkja björgunarsjóð Evrópusambandsins og lofuðu þeir í kjölfarið staðan yrðu endurskoðuð á næstu mánuðum. Þetta setur þrýsting á Þýskaland sem hefur lagst gegn stærri björgunarsjóðum Evrópusambandsins. Frá þessu segir á vef fréttastofunnar Reuters.

Fjármálaráðherrar G-20 telja aukið fjármagn frá Evrópu skilyrði fyrir að fjármagn frá öðrum löndum verði aukið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í tilkynningu sem gefin var út eftir fundinn sagði meðal annars að víðtæk samstaða væri um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti ekki komið í stað sterkari varasjóða Evrópusambandsins og að fjármagn til sjóðsins verði ekki aukið án skýrari stefnu Evrópusambandsins um lausn á skuldakreppunni á evrusvæðinu.