Evrópskir embættismenn munu ferðast til Bandaríkjanna í þessari viku í því skyni að fá bandarísk stjórnvöld til að leggja meira til alþjóðabjörgunarsjóðs sem ætlað er að takast á við vanda skuldugra ríkja. Nú eru það áhyggjur af skuldastöðu og fjárlagahalla spænska ríkisins sem er fólki efst í huga. Aðeins þremur vikum eftir að greint var frá því að evrópski neyðarsjóðurinn yrði stærri en 1.000 milljarðar evra hefur ávöxtunarkrafa á spænsk skuldabréf hækkað töluvert og hefur ekki verið hærri það sem af er árinu. Staða spánar og björgunarsjóðsins verður því efst á baugi á vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington í vikunni.

Í frétt Bloomberg segir að afstaða Bandaríkjastjórnar sé sú að Evrópa geti tekist á við skuldavanda Evrópuríkja á eigin spýtur. Evrópskir embættismenn segja hins vegar að Evrópa sé búin að gera nóg til að eiga skilda alþjóðlega aðstoð. Segir jafnframt í fréttinni að hækkun á ávöxtunarkröfu ítalskra og spænskra ríkisskuldabréfa bendi ekki til þess að skuldakreppa evruríkjanna sé að baki.