Skuldabréfaútgáfa evrópskra fyrirtækja, að bönkum undanskildum, á þessu ári er minni en hún hefur verið í sex ár. Það sem af er árinu hafa evrópsk fyrirtæki hafa aðeins gefið út skuldabréf fyrir 80 milljarða evra á þessu ári sem er minnsta upphæð frá árinu 2005, að því er segir í frétt Bloomberg. Meðalávöxtunarkrafa á skuldabréf rekstrarfyrirtækja í fjárfestingarflokki er nú 2,5 prósentustigum undir ávöxtunarkröfunni sem fjárfestar vilja fá frá evrópskum bönkum. Evrópsk fyrirtæki sitja nú á 540 milljörðum evra í lausu fé og hefur þessi fjárhæð ekki verið hærri í níu ár.

Þrátt fyrir að ávöxtunarkrafan sem rekstrarfyrirtækjunum býðst sé í algeru lágmarki er áhugi fyrir frekari skuldsetningu lítill. Lítið sé um fjárfestingartækifæri og því myndi féð sitja á reikningum í bönkum. Í ljósi þess hve staða evrópskra banka er veik þykir fáum það fýsilegur kostur.

Meðalávöxtunarkrafa á skuldabréf rekstrarfyrirtækja í fjárfestingarflokki er nú um 3,6 prósent, en til samanburðar má nefna að ávöxtunarkrafa á ítölsk tíu ára ríkisskuldabréf er yfir sjö prósentum og á frönsk tíu ára bréf fór hún yfir 3,7% í mánuðinum.