Evrópuráðið hefur hvatt evrópsk heimili til þess að draga úr kyndingu og slökkva á rafmagnstækjum í tilraun til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná markmiðum Kyoto bókunarinnar. Þessi nýja herferð Evrópuráðsins miðar að því að auka vitund neytenda um það hve einfaldar aðgerðir geta haft mikil áhrif á loftlagsbreytingar, en tillagan kemur í kjölfar ábendingar yfirvalda um að neytendur og fyrirtæki í samgöngugeiranum verði að vera ábyrgari gagnvart umhverfinu.

Herferðin er jafnframt svar við umkvörtunum iðnfyrirtækja sem segja að atvinnulífið beri of mikla ábyrgð á því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Með því að lækka hitann innanhúss um 1°C og slökkva alveg á rafmagnstækjum er hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá neytendum um 5 - 10%, en neytendur eru ábyrgir fyrir fjórðungi allrar losunar slíkra lofttegunda í Evrópu.

Evrópuráðið hefur gert óbindandi samning við bílaframleiðendur um að dregið verðið úr útblæstri bifreiða. Náist markmið ráðsins ekki fyrir 2008 gæti samningurinn orðið bindandi. Stjórnvöld í Brussel hafa beitt aðildarríki ESB þrýstingi undanfarið til að fá þau til að samþykkja tillögur sem kveða á um að fyrirtæki þurfi að draga enn úr losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008 til 2012. Síðustu forvöð til að samþykkja tillögurnar eru 30. júní en Bretland, að minnsta kosti, mun ekki ná að samþykkja tillögurnar innan tímamarkanna.