Evrópsk hlutabréf hafa ekki verið ódýrari gagnvart bandarískum í sex ár. Leiða má að því líkur að þau gætu jafnvel orðið enn ódýrari samfara því að meirihluti stærstu fyrirtækja álfunnar nær ekki hagnaðarmarkmiðum sínum fyrir þetta ár. Hagnaður fyrirtækja í Vestur- Evrópu dróst saman um 25,3% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs borið saman við sama fjórðung árið 2007, að því er fram kemur í gögnum sem Bloomberg-fréttaveitan tók saman.

Til samanburðar lækkaði hagnaður bandarískra fyrirtækja um 17,4% á milli ára. Raunvextir á evrusvæðinu voru 2,6 prósentustigum hærri en í Bandaríkjunum í aprílmánuði. Þetta er mesti munur sem mælst hefur frá því að evran var tekin upp árið 1999, segir í frétt Bloomberg. Þessi hækkandi vaxtakostnaður veldur mörgum evrópskum fyrirtækjum auknum rekstrarerfiðleikum.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .