Hlutabréf hækkuðu nokkuð í Evrópu í dag og hafa nú ekki verið hærri frá því snemma í nóvember.

Að sögn Reuters fréttastofunnar er það helst jákvæðni og væntingar fjárfesta til bata í bandaríska hagkerfinu sem veldur hækkunum dagsins.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði um 2,2% í dag. Þá hefur vísitalan hækkað um 50% frá því snemma í mars á þessu ári þegar hún náði sögulegu lágmarki sínu. Hækkunin það sem af er ári nemur 16%.

Þá höfðu orð Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna nokkuð jákvæð áhrif en hann sagði í morgun að allt útlit væri fyrir það að alþjóðakreppan væri að ná hámarki á heimsvísu og menn gætu gert ráð fyrir því að sjá bata á næstu grösum.

Viðmælandi Reuters segir jákvæðar tölur af fasteignamarkaði í Bandaríkjunum hafa farið vel ofan í fjárfesta í Evrópu í dag. Í voru birtar nýjar tölur sem sýna að velta á bandarískum fasteignamarkaði hefur ekki aukist jafn hratt í um tvö ár.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins í Evrópu. Þannig hækkaði UBS um 6,4%, en aðrir bankar á borð við Barclays, HBOS, BNP Paribas, Banco Santander og HSBC hækkuðu á bilinu 1,4% - 4,8%.

Mest hækkuðu markaðir í París þar sem CAC 40 vísitalan hækkaði um 3,2% en minnst var lækkunin í Sviss þar sem SMI vísitalan hækkaði um 1,8%.

Rétt má geta þess að markaðir í Bandaríkjunum hafa hækkað það sem af er degi en þeir hafa nú verið opnir í um 2 ½ tíma. Þannig hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 1,3%, Dow Jones um 1,4% og S&P 500 um 1,6%.