Eftir vaxtalækkun Englandsbanka í gær, sem Seðlabanki Íslands fylgdi eftir með vaxtalækkun í morgun, viku áður en tilkynna átti um ákvörðun peningastefnunefndar, hefur gengi hlutabréfa á mörkuðum Evrópu tekið að rísa á ný eftir lækkanir síðustu vikna.

Snemma í morgun hafði Stoxx 600 vísitalan sem samanstendur af fyrirtækjum víða í álfunni hækkað um 0,8%, en þegar þetta er skrifað nemur hækkun hennar 0,24%, og stendur hún í 336,44 stigum. FTSE 100 vísitalan hafði einnig hækkað um 0,8% í morgun, en nú stendur hækkun hennar í 0,20%, upp í 5.971,99 stig.

Þýska DAX 30 vísitalan hafði einnig hækkað um 0,8% í morgun, en hækkunin nú nemur 0,30%, upp í 10.506,62 stig, og franska Cac 40 vísitalan hækkaði um 1,1% í morgun, en hækkunin nú stendur í 0,60%, upp í 4.664,39 stig.

Paul Dales aðalhagfræðingur Capital Economics aðgerðir Englandsbanka myndu samt sem áður ekki stöðva samdrátt hagkerfisins á öðrum og þriðja ársfjórðungi ársins vegna áhrifa Covid 19 kórónaveirunnar frá Wuhan í Kína.

Bankinn hafi „tekið í gikkinn á tvöfaldri haglabyssu sinni,“ segir hann í lýsingu á aðgerðum bankans samkvæmt FT , sem muni „hjálpa til við að tryggja að hagkerfið geti náð sér á strik á ný... þegar veiran hefur náð hámarki sínu.“