Bandarískir fjárfestar geta nú kynnt sér evrópsk markaðsgögn frá upplýsingaveitu NASDAQ OMX í Bandaríkjunum. Sömuleiðis munu evrópskir fjárfestar fá aðgang að bandarískum markaðsgögnum.

Kauphöll Íslands er hluti af NASDAQ OMX Nordic Exchange og í tilkynningu Kauphallarinnar segir Þórður Friðjónsson, forstjóri, að aðgengi bandarískra fjárfesta að þessari gagnaveitu muni auðvelda þeim að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og koma til með að auka seljanleika þegar fram líða stundir. Þessi aukna þjónusta muni einnig að öllum líkindum spara viðskiptavinum NASDAQ OMX hluta af kostnaði við fjárfestingar í eigin kerfum.