Markaðir í Evrópu hækkuðu nokkuð í viðskiptum dagsins í dag. Samkvæmt frétt Bloomberg eru hækkanirnar taldar vera vegna þess að fjárfestar búast við auknum aðgerðum af hálfu evrópska seðlabankans til að takast á við skuldavanda evrusvæðisins. Þá birtust í dag tölur frá Kína og Japan sem juku bjartsýni fjárfesta.

Á fimmtudaginn munu evrópski seðlabankinn og Englandsbanki taka ákvarðanir um stýrivexti og er búist við 0,25 prósentustiga vaxtalækkun af hálfu evrópska bankans. Þá bærist enn sú von í brjósti sumra að Englandsbanki muni á ný taka að kaupa skuldabréf af bönkum til að auka lausafé í bankakerfinu.

Bjartsýni meðal kínverskra innkaupastjóra og japanskra framleiðenda er meiri en búist hafði verið við og ýtti það undir hlutabréfaverð í Evrópu.

Breska FTSE vísitalan hækkaði um 1,25% í dag, þýska DAX um 1,24% og franska CAC um 1,36%.