Evrópskir hlutabréfamarkaðir eru nær flatir eftir opnun þeirra í morgun og segir í frétt BBC að stemning meðal fjárfesta einkennist nú aftur af varkárni eftir skammvinna gleði í gær. Sú ákvörðun ESB að veita Spáni neyðaraðstoð vegna bankakreppunnar þar í landi í gær létti lund fjárfesta, en það virðist hafa verið mjög skammvinnur vermir.

Sérfræðingar, sem vitnað er til í fréttinni segja að fjárfestar hafi nú miklar áhyggjur af hagvexti í evrópu nú þegar evrukrísan er farin að hafa svo umtalsverð áhrif á stærri hagkerfi ESB eins og Spán og Ítalíu. Eru þessar áhyggjur sagðar ástæðan fyrir því að bandarískar og evrópskar hlutabréfavísitölur lækkuðu þegar líða tók á gærdaginn.