Evrópski þróunarbankinn (EBRD, European Bank of Reconstruction and Development) hefur keypt hlut í Pharma Investment B.V., að verðmæti 15 millíóna evra.

Pharma Investment er hollenskt eignarhaldsfélag í eigu Milestone ehf. og er hluti af verkefnum Milestone á sviði eignastýringar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Milestone.   Þar segir að Pharma Investment eigi og reki 180 apótek í fimm löndum; Króatíu, Makedoníu, Serbíu, Ungverjalandi og Rúmeníu.

„Markmið Pharma Investments er að verða leiðandi aðili í smásölu lyfja í SA–Evrópu og reka 500 apótek árið 2010. Áætluð heildarvelta fyrirtækins árið 2008 er 150 milljónir evra og er stefnt að því að opna starfsemi í þremur nýjum löndum á þessu ári,” segir í tilkynningu frá Milestone.

Rætur félagsins má rekja til reksturs íslensku lyfjakeðjunnar Lyfja & heilsu ehf., sem er dótturfélag Milestone. Uppbygging Pharma Investment í SA-Evrópu byggir því á þekkingu samstæðunnar á lyfja- og smásölumarkaðnum á Íslandi.

Mikil tækifæri í SA-Evrópu

Að sögn Guðmundar Ólasonar, forstjóra Milestone, er fjárfesting EBRD mikilvægt skref í vexti Pharma Investment.

„Öll þróun í SA-Evrópu einkennist af miklum vexti og þar eru mörg góð fjárfestingatækifæri fyrir eignarstýringarsvið okkar. Uppbygging Pharma Investment er gott dæmi um það. Tækifærin á smásölumarkaði lyfja í SA-Evrópu eru mikil um þessar mundir og til að fylgja þeim eftir er aðkoma EBRD og hugsanlegra annarra fjárfesta mikilvæg,” segir Guðmundur.

Fjölvar Darri Rafnsson, framkvæmdastjóri Pharma Investmens segir: „Aðkoma EBRD er mikil viðurkenning á uppbyggingarstarfi Pharma Investment síðustu árin. EBRD hefur fjárfest mest á þessu svæði undanfarin 15 ár og nýtur því mikillar virðingar í SA-Evrópu. Aðkoma bankans að félaginu mun jafnframt auðvelda fjármögnun félagsins og skapa aukin tækifæri til vaxtar á mörkuðum í SA-Evrópu.”