Bankar og fjármálastofnanir á evrusvæðinu hafa sótt í sjóði evrópska seðlabankans sem aldrei fyrr. Ástæðan er sú að bankinn bauð í dag í fyrsta sinn upp á lán til þriggja ára sem ætlað er að gera fyrirtækjunum kleift að standa við skuldbindingar sínar á næsta ári nú þegar dyr lánsfjármarkaða eru þeim lokaðar.

Vaxtakjörin eru afar hagstæð en í takti við stýrivaxtastig á evrusvæðinu, eða 1%.

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times kemur fram að rúmlega 500 fyrirtæki hafi sótt um að fá 489 milljarða evra að láni. Þetta er tæplega tvöfalt meira en búist var við.

Bankar og fjármálastofnanir á evrusvæðinu þurfa að standa skil á greiðslu 720 milljarða evra á næsta ári auk þess að hafa yfir nægu fé að ráða til að lána til viðskiptavina sinna.