Heimildir BBC herma að síðar í dag verði tekin ákvörðun um það innan evrópska seðlabankans að hætta að veita grískum bönkum lánafyrirgreiðslu undir formerkjum ELA (e. Emergency Liquidity Assistance) neyðaráætlunarinnar.

Gríska bankakerfið er háð þessum seðlabankalánum, enda eru fjármögnunarkjör grískra banka, sem og gríska ríkisins, svo harkaleg að markaðir eru því sem næst lokaðir fyrir þeim.

Verði skorið á þessa líflínu fyrir gríska banka má gera ráð fyrir því að bankarnir muni ekki opna á morgun og að gjaldeyrishöft í einhverri mynd muni fylgja í kjölfarið. Við þær aðstæður væri framtíð Grikklands innan evrusamstarfsins afar erfið.

Reyndar segir í frétt BBC að sumir sérfræðingar spái því að í stað þess að hætta að veita lánin muni seðlabankinn setja þak á lánveitingarnar. Það færi hins vegar eftir því hversu hátt þetta þak er hvaða áhrif slík aðgerð hefði á grísku bankana. Þeir hafa nú þegar dregið um 80-90 milljarða evra á þessa tilteknu lánalínu og þak gæti því haft sömu áhrif og ef skrúfað væri alfarið fyrir lánveitingarnar.