Evrópski seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann muni ekki lengur samþykkja grísk ríkisskuldabréf sem veð fyrir lánum til almennra banka. Ákvörðunin gæti gert fjármögnun grískra banka erfiðari og dýrari.

Í frétt BBC segir að ákvörðun seðlabankans komi í kjölfar þess að ekki náðist samkomulag við grísku stjórnina um það hvernig fara eigi með 240 milljarða dala björgunarlán Grikkja.

Nýkjörin ríkisstjórn Grikklands á nú í viðræðum við alþjóðlega lánadrottna um það hvernig semja megi á ný um kjör lánapakkans, en stjórnin telur kjörin of hörð. Fjármálaráðuneyti Grikklands sagði í tilkynningu að ákvörðun seðlabankans muni ekki hafa nein neikvæð áhrif á fjármálakerfi landsins. Geirinn væri "fyllilega varinn" og að aðrir möguleikar væru opnir.