Evrópski seðlabankinn er að skipta út grískum skuldabréfum að nafnvirði um 50 milljarðar evra fyrir önnur grísk bréf, sem eru að öllu leyti sambærileg með þeirri undantekningu að þau eru undanþegin ákvörðunum kröfuhafafunda og öðrum kjarabreytingum. Með þessu móti vill seðlabankinn forðast það að þurfa að afskrifa gríska skuldabréfaeign sína ef til þess kemur að eigendur grískra skuldabréfa þurfa að færa niður kröfur sínar á gríska ríkið.

Í frétt Business Week segir að í bígerð sé aðgerð sem eigi að lækka skuldir gríska ríkisins um eina 100 milljarða evra og að hún eigi aðeins að taka til kröfuhafa í einkageiranum, einkum banka og fjármálastofnana. Ef gríska ríkið tekur einhliða ákvörðun um slíkan hárskurð, eins og það er kallað, væri evrópski seðlabankinn undanþeginn að því gefnu að hann nái að skipta út bréfunum. Hefur Business Week það eftir ónefndum heimildarmönnum innan seðlabankans að gert sé ráð fyrir því að flutningurinn verði búinn á mánudag.