Seðlabanki Evrópu hefur ákveðið að hækka stýrivexti um fjórðung úr prósenti í 2,75%, eins og sérfræðingar höfðu búist við. Búist er við stýrivaxtahækkunum víða um heim í dag og næstu daga. Seðlabankinn í Suður-Kóreu hefur þegar hækkað vexti og hið sama hefur tyrkneski seðlabankinn gert í fyrsta skipti í fimm ár.

Seðlabankinn ákvað vaxtahækkunina til að vinna gegn verðbólgu sem er yfir verðbólgumarkmiðum bankans. Verðbólga mælist nú 2,5% markmiðið er að hún sé ekki yfir 2%.

Sérfræðingar á gjaldeyrismörkuðum reikna með enn frekari vaxtahækkunum á þessu ári og að stýrivextir bankans verði komnir í 3,25% í árslok. Seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í meira en tvö ár fram til desember á liðnu ári.

Þrátt fyrir vaxtahækkunina nú eru stýrivextir á evrusvæðinu lægri en í Bretlandi og Bandaríkjunum. Flestir eiga von á því að bandaríski seðlabankinn hækki vexti og yrði það í sautjánda skipti frá júní 2004.

JPMorgan Chase & Co. reiknar með að alþjóðleg vísitala vaxta hækki eftir því sem líði á árið og hafi ekki verið hærri frá 2001.