Spáð er að evrópski seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína í 4% á morgun, en einnig er talið að hann muni hækka verðbólgu- og hagvaxtarspá fyrir evrusvæðið á sama tíma, sem eykur líkur á því að bankinn muni hækka vextina aftur á árinu, segir í frétt Financial Times.

Olíuverð, launaþróun og hraðari hagvöxtur en spáð hefur verið munu liggja að baki endurskoðaðri verðbólguspá. Síðasta verðbólguspá bankans, sem kom út í mars, gerði ráð fyrir 1,8% verðbólgu, en verðbólgumarkmið bankans er "um, en undir, 2%." Endurskoðuð verðbólguspá myndi gefa til kynna að aukin hætta væri á því að það markmið næðist ekki.

Í síðasta mánuði gaf Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, sterklega til kynna að stýrivextir yrðu hækkaðir, en hann sagði að bankinn myndi standa sterkan vörð gegn verðbólgu, en það orðalag hefur hann notað áður þegar stýrivextir hafa verið hækkaðir.

Evrópski seðlabankinn hefur iðulega hert á peningamálastefnu sinni, þegar hagvöxtur á evrusvæðinu kemst á skrið, en hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi mældist 0,6% sem var yfir spám greiningaraðila.

Julian Callow, hagfræðingur hjá Barclays Capital, segir að ef bankinn varar við auknum verðbólguþrýstingi og hækki verðbólguspá sína á morgun muni það gefa til kynna að vextir verði hækkaðir í 4,5% eða jafnvel meira.