Gengi hlutabréfa fjármálafyrirtækja í Evrópu hafa lækkað í dag og skuldatryggingaálag þeirra náði fimm mánaða hámarki í kjölfar þess að Jean-Claude Trichet, forseti Evrópska seðlabankans, tilkynnti um hertara aðgengi að lánaglugga bankans í gær.

Reglurnar munu taka gildi 1. febrúar á næsta ári.

Reglunum er meðal annars beint gegn bönkum sem gefa út eignatryggð skuldabréf eingöngu til þess að komast skammtímafé Evrópska seðlabankans.

Að sögn Financial Times er Glitnir sagður vera í hópi ásamt til að mynda Lehman Brothers, Macquire, og bresku bönkum sem reglunum er beint og er hann er nefndur sem dæmi um banka sem gefið hafa út skuldabréfavafninga eingöngu til endurhverfra verðbréfaviðskipta og þeir hafi innihaldið mun áhættusamari veð en Evrópski seðlabankinn hafi gert ráð fyrir.

Í gær tilkynnti Trichet um aukningu á þeim kostnaði sem fylgir því að leggja inn eignatryggð skuldabréf gegn því að fá aðgengi að skammtímafé Evrópska seðlabankans auk þess sem að ekki verður lengur heimilt að nota fasteignalán eða önnur lán sem ekki eru gerð upp í evrum.

Evrópski seðlabankinn víkkaði á sínum tíma út veðheimildir til þess að auka skammtímaaðgengi að lánsfé vegna lánsfjárkreppunnar en eins og komið hefur fram á síðum Viðskiptablaðsins þá hefur vaxandi óánægju með þetta fyrirkomulag gætt meðal forráðamanna við bankans að undanförnu.

Margir hafa bent á að fyrirkomulagið hafi leitt til þess að illa stöddum bönkum í Miðjarðarhafslöndunum sé haldið á floti á kostnað skattgreiðenda í Norður-Evrópu auk þess sem að þungavigtarmenn innan seðlabankans hafa lýst því yfir að hætta sé á að fjármálafyrirtæki „leiki á kerfið” – það er að segja út bréf eingöngu til þess að nota í endurhverfum verðbréfaviðskiptum.

Í þessu samhengi má nefna að þegar ljóst varð að reglurnar yrðu hertar notaði tímaritið The Economist þá líkingu að Evrópski seðlabankinn væri að fara að „setja lokið á ruslatunnuna.”

Eins og fram kemur í umfjöllun í fréttabréfi efnahagsrannsóknarfyrirtækisins RGE Global Monitor þá taka fæstir seðlabankar við jafn víðtækum veðum og sá Evrópski. Eins og sagt hefur verið frá í Viðskiptablaðinu þá hefur Yves Mersch, seðlabankastjóri Lúxemborgar og bankaráðsmaður Evrópska seðlabankans, látið í ljós áhyggjur sínar um að bankar, jafnt innan evrusvæðisins og utan, væru að misnota þessar heimildir með því að gefa út eignatryggð skuldabréf eingöngu til þess að fá skammtíma fjármögnun frá Evrópska seðlabankanum.

RGE segir að þessum orðum sé meðal annars beint til íslenska bankans Glitnis, auk breskra banka, Lehman CLO og Macquarie Bank, en  hann hefur lagt fram skuldabréfavafninga sem innihalda áströlsk bílalán í viðskiptum við Evrópska seðlabankans.

Axel Weber, forseti þýska seðlabankans og bankaráðsmaður í þeim evrópska, hefur jafnframt sagt nauðsynlegt að markaður sé til staðar með þau veð sem Evrópski seðlabankinn taki við í endurhverfum viðskiptum þannig að verðmyndun þeirra liggi fyrir. Hann hefur einnig látið þau orð falla að bankinn muni ekki líða að fjármálafyrirtæki gefi út pappíra eingöngu til þess að fá aðgengi að skammtímafé seðlabankans.

Breska blaðið Financial Times hefur eftir Trichet að hertari reglur munu aðeins hafa áhrif á lítinn hluta veða og ekki draga úr möguleikum til þess að endurfjármagna sig. Hinsvegar hefur sama blað eftir sérfræðingum að áhrifin verði djúpstæðari.

Haft er eftir Matt King, sérfræðingi í fjármögnun hjá Citigroup, að þær munu leiða til þess að bankar og fjármálastofnanir muni þurfa að reiða sig enn frekar á langtímafjármögnunum á sama tíma og fjárfestar hafa áhyggjur af getu þeirra til endurfjármögnunar.

Sem kunnugt er hafa spænskir bankar verið sértaklega stórtækir í að nýta sér lánaglugga Evrópska seðlabankans undanfarið og er því ljóst að hertari reglur munu bitna hart á þeim.

Nýju reglurnar munu innihalda hækkun „hársnyrtingar” (e. haircut) á eignatryggðum skuldabréfum. Hársnyrtingin felur í sér að tiltekið hlutfall af markaðsverðmæti er dregið frá þegar verðmæti tryggingarinnar er metið.

Eftir reglurnar taka gildi verður hlutfall fast 12% yfir línuna en nú er það á bilinu 2 til 18%. Þá verður lagt á refsigjald á þau eignatryggðu skuldabréfasöfn sem eru metin útfrá líkönum og óveðtryggð bankabréf. Sérfræðingar hjá Barclays Capital telja að hækkun hársnyrtingarinnar muni þýða að bankarnir þurfi að leggja 25 til 45 milljarða evra í viðbóta tryggingu.

Kostnaðurinn fyrir bankanna gæti hlaupið á 370 til 350 milljónum evra á ársgrundvelli.

Financial Times hefur eftir Laurent Fransolet, sérfræðingi Barclays, að þetta sé ekki „svo lítið en væntanlega viðráðanlegt.”