Erfitt er að finna „rétt“ stýrivaxtastig sem hentar ólíkum hagkerfum sem eru í sameiginlegu myntsvæði. Þetta er sá vandi sem forráðamenn Evrópska seðlabankans standa frammi fyrir þessa dagana.

Ef eitthvað er þá er vandinn enn meiri um þessar mundir þar sem hagsveiflur eru afar ólíkar á evrusvæðinu. Ljóst þykir að stærsta hagkerfi Evrópu, Þýskaland, er best í stakk búið til þess að standa af sér niðursveiflu í alþjóðahagkerfinu en hafa verður í huga að nú þegar hafa óveðursskýin hrannast upp í ríkjum á borð við Spán og Ítalíu. Sumir sérfræðingar óttast að gjá myndist á milli evruríkjanna í norðri og suðri og að Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri, finni sig staddan í miðjunni.

Spænska hagkerfið er eitt þeirra hagkerfa sem hefur vaxið feikilega mikið undanfarin ár, ekki síst í krafti mikillar þenslu á byggingar- og fasteignamarkaði. Spánverjar nutu góðs af auðveldu aðgengi að ódýru lánsfjármagni. Lánsfjárkreppan hefur leikið hagkerfi landsins grátt og vilja margir meina að Spánverjar standi nú frammi fyrir loftlausri fasteignabólu. Þrátt fyrir að afgangur hafi verið af fjárlögum ríkissjóð og hann veiti stjórnvöldum svigrúm til þess að lækka skatt eða grípa til annarra aðgerða til þess að blása lífi kólnandi glæður telja margir sérfræðingar að meira þurfi að koma til.

Þar sem að Spánn er aðili að myntbandalaginu er útilokað að stjórnvöld geti beitt peningamálastefnunni til þess að örva hagkerfið.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .