Meðal þess sem rætt var um á vaxtarákvörðunarfundi Evrópska seðlabankans í dag er hvort bankinn eigi að feta í fótspor annarra seðlabanka og grípa til „óhefðbundinna“ aðgerða við framkvæmd peningamálastefnunnar til þess að koma hjólum atvinnulífsins á evrusvæðinu í gang á ný.

Bandaríski seðlabankinn og Englandsbanki hafa einmitt gripið til slíkra aðgerða og ráðist í hreina og beina seðlaprentun og bein kaup á skuldabréfum einkageirans og hins opinbera, svo einhver dæmi séu tekin.

Evrópski seðlabankinn hefur aftur á móti verið svifaseinni og varkárari enda hafa forráðamenn hans verið afar uppteknir af áhrifum slíkra aðgerða á verðbólguvæntingar. Þær áhyggjur hafa einnig gert það að verkum að bankinn hefur stigið varlega til jarðar, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, þegar kemur að ákvörðun stýrivaxta og fyrst og fremst einbeitt sér að því að stemma stigu við lausafjárþurrð á fjármálamörkuðum evrusvæðisins.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í erlendri fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag en Seðlabanki Evrópu tilkynnti í dag um 25 punkta stýrivaxtalækkun, úr 1,25% í 1%.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .